154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

innviðir markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.

914. mál
[12:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að halda mig við þetta tiltekna mál en tek svo sem undir með þingmanninum að það er mikilvægt að leggja meiri áherslu á þau mál sem varða hagsmuni þjóðarinnar á hverjum tíma mest. Þetta er hins vegar eitt af þeim verkefnum sem fylgja því að vera í stjórnmálum og ég veit að nefndin mun setjast yfir þetta og fá ítarlegri upplýsingar, annars vegar frá ráðuneytinu um alla þessa þætti sem hv. þingmaður hafði áhyggjur af og að við þyrftum að ræða hér í þingsal. Ég held að það sé ekki aðalmálið, ég held að málið sé að koma því í þinglega meðferð og fá þannig hugsanlega fram áhuga innlendra aðila á þessu máli og átta sig á mikilvægi þess. En það er líka mikilvægt, til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar, að við sem erum á þessu Evrópska efnahagssvæði njótum sömu möguleika og allir aðrir til að sækja fram, undir sameiginlegri löggjöf, og ég veit að nefndin mun taka vel utan um þetta mál.